Aðventuna á ekki að nýta í kosningabaráttu

Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir. mbl.is/Golli

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði á Alþingi í  dag, að nú væri ekki rétti tíminn til að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Íslands og kjósa til Alþingis. „Aðventuna á ekki að nýta í kosningabaráttu," sagði Þórunn.

Hún hefur lýst þeirri skoðun að boða eigi til Alþingiskosninga næsta vor og fara þar fram á endurnýjað umboð ríkisstjórnarinnar. Þórunn sagði í umræðu í dag um vantrauststillögu á ríkisstjórnina, að Íslendingar hefðu að undanförnu sýnt úr hverju þeir eru gerðir og með ólíkindum sé að fylgjast með deiglunni og gróskunni í samfélaginu þótt aðstæður í samfélaginu séu einhverjar þær erfiðustu, sem stjórnvöld hafa þurft að glíma við á lýðveldistímanum.

Þórunn sagði ef menn hefðu ekki ætlað að vera svona snjallir og taka einhverja ráðherra í bólinu, eins og þann sem stæði í ræðustóli, hefðu þeir kannski skoðað tillöguna sína betur.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði að eðlilegt væri að ræða um kosningar nú í ljósi stöðunnar. Hann sagði, að ýmislegt gæti gerst, sem kallaði á kosningar áður en kjörtímabilinu lýkur. M.a. muni Sjálfstæðisflokkurinn hugsanlega eftir 10 vikur setja umsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá sína, og slíkt myndi gerbreyta allri stöðunni. Aðild að ESB myndi síðan kalla á stjórnarskrárbreytingar og kosningar.

Engin þeirra ástæðna kallaði hins vegar á kosningar um áramótin eins og vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar gerði ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka