Forráðamenn Norðuráls hafa óskað eftir því við stjórnvöld að fá að stækka álverið í Helguvík úr 250 þúsund tonnum í 360 þúsund tonn. Formleg svör hafa ekki borist frá ríkisstjórninni enda virðist sem stjórnarflokkarnir gangi ekki alveg í takt í málinu.
Sjálfstæðismenn eru jákvæðir fyrir stækkun, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, en andstaða er við málið innan raða Samfylkingarinnar.
Þetta staðfestir Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra þegar hann segir í samtali við Morgunblaðið að hann geti ekki heitið stuðningi fyrirfram við málið innan sinna raða. Beiðni Norðuráls sé órædd innan ríkisstjórnarinnar en hann vill á þessu stigi málsins ekki útiloka að til stækkunar geti komið í Helguvík. Hann vilji skoða allar hliðar málsins áður en til ákvörðunar kemur.
„Ég hef bent á að það sé allsendis óvíst hvernig á að afla orku til þessa. Eftir því sem ég kemst næst þá er ekki trygg orka nema í helmingi af þessu. Ugglaust væri hægt að afla orkunnar með því að leggja allt undir, og þar með alla Þjórsá meira og minna. Það hefur vakið litla hrifningu í mínum herbúðum,“ segir Össur, sem upplýst hefur Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra um stöðu mála, sem og þingflokk Samfylkingarinnar. Þar á bæ urðu engin húrrahróp, að sögn Össurar.