Bitnar á þeim sem að síst skyldi

„Það hefur aldrei þótt sæmandi að kenna öðrum um afglöp sín og í mínu ungdæmi voru þeir sem að það gerðu kallaðir aumingjar,“ sagði Margrét Margeirsdóttir formaður Félags eldri borgara á útifundi BSRB og fleiri samtaka á Ingólfstorgi í dag. Uppskar hún mikil fagnaðarlæti viðstaddra.

Töluverður fjöldi fólks mætti á fundinn og voru um 600 manns á torginu á sama tíma er mest var.

Gerður A. Árnadóttir, formaður Þroskahjálpar, varaði  þá sterklega við því að farið yrði í niðurskurð í velferðarkerfinu til að reyna að rétta af ríkisreksturinn. Minnti hún á að lítið hafi farið fyrir góðærinu hjá þeim sem hafa það minnst. Í góðærinu hafi tónninn hjá stjórnvöldum verið sá að alls ekki mætti auka ríkisútgjöld því að þá myndi þenslan aukast. Fatlaðir búi nú þegar við verulegan skort á þjónustu og nú blasi við að enn verði niðurskurðarhnífnum beitt. Niðurskurður í velferðarkerfinu bitni hins vegar verst á þeim sem að síst skyldi - öryrkjum, börnum, öldruðum og sjúkum.

Halldór Sævar Guðbergsson formaður Öryrkjabandalagsins, kom þá með hugmyndir að umbótum. Sagði hann að afnema þyrfti verðtryggingu, girða fyrir víxlverkun á milli almannatryggingakerfis og lífeyris. Það væri óþolandi þegar að aukin réttindi í almannatryggingakerfinu leiddu til skerðingar á lífeyri. Kallaði hann ennfremur eftir að stjórnmálamenn og embættismenn upplýstu almenning og vísaði þar í ræðu Davíðs Oddsonar í síðustu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert