Brunavörnum verulega áfátt á heimilum

slökkvilið
slökkvilið mbl.is

 Könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Brunamálastofnun sýnir að eldvörnum er verulega áfátt á mörgum íslenskum heimilum. Enn tekur um fimm prósent heimila áhættuna af því að hafa engan reykskynjara og aðeins einn slíkur er á nær 30 prósent heimila að auki. Þetta var kynnt á blaðamannafundi í dag.

Sverrir Björn Björnsson, formaður LSS, segist líta á það sem vítavert gáleysi að hafa engan reykskynjara og að í langflestum tilvikum þurfi tvo eða fleiri til að tryggja öryggi fjölskyldunnar.

Tveir Íslendingar deyja í eldsvoðum árlega

„Algengt verð á reykskynjara er um 1.500 krónur og uppsetning tekur fimm til tíu mínútur. Vælið í reykskynjara getur ráðið úrslitum um hvort fólk lifir eða deyr þegar eldur kemur upp. Að jafnaði verða tveir Íslendingar eldsvoðum að bráð á hverju ári og enn fleiri verða fyrir heilsutjóni. Eignatjón í eldsvoðum nemur að jafnaði um 1.500 milljónum króna árlega.

Slökkviliðsmenn leitast við að bæta eldvarnir á íslenskum heimilum með Eldvarnaátakinu 2008 sem hefst í dag. Í því felst meðal annars að slökkviliðsmenn heimsækja nemendur í 3. bekk grunnskóla um allt land og fræða þá og fjölskyldur þeirra um eldvarnir heimilisins. Nýlegum bæklingi um eldvarnir verður dreift til foreldra barnanna. Fræðslu um eldvarnir verður einnig komið á framfæri við almenning með ýmsum hætti og verður mikil áhersla lögð á gildi reykskynjara og annars eldvarnabúnaðar," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert