Eiginfjárhutfall Landsnets hf., sem á og rekur allar helstu flutningslínur rafmagns á Íslandi, er orðið neikvætt eftir mikla veikingu krónunnar á þessu ári. Þetta staðfesti Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Landsnet er samkvæmt því tæknilega gjaldþrota eins og staða fyrirtækisins er núna. Rekstrarhagnaður Landsnets fyrstu níu mánuði ársins var um 3,6 milljarðar króna en vegna mikillar veikingar krónunnar var tap á sama tímabili um 8,1 milljarður. Munar þar mikið um að skuldir Landsnets, sem eru í erlendri mynt, hafa hækkað um rúmlega 60 prósent á þessu ári, farið úr 34 milljörðum í rúmlega 55 milljarða.
Þórður segir rekstrarhæfi Landsnets traust og stöðugt en bregðast þurfi við stöðunni sem upp er komin. „Miðað við óbreytt gengi [krónunnar] er eigið fé félagsins neikvætt. Ef endurmat á eignum leiðir ekki til þess að eigið fé verður jákvætt að nýju, sem ég geri þó ráð fyrir, þarf að gera eigendum fyrirtækisins viðvart með endurfjármögnun í huga.“ Framkvæmdaáætlanir Landnets eru í uppnámi þar sem aðgengi að lánsfé er ekki fyrir hendi, að sögn Þórðar. Það er sama staða og orkufyrirtækin í landinu búa við en endurskoðun á framkvæmdaáætlunum fyrirtækjanna stendur nú yfir.