Vörubílstjórar hafa verið áberandi á þingpöllum meðan vantraustsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefur verið til umræðu. Þeir hafa klappað og kallað fram í og stöðva þurfti þingfund tímabundið þegar gestir á þingpöllum létu falla niður borða sem á stóð Við treystum ykkur ekki.
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir stjórnarandstöðuna vera að nota tækifærið með vantrauststillögunni til að beina að sér kastljósi fjölmiðla. Lítið nýtt hefur komið fram við umræðurnar og málflutningur stjórnarandstöðu ekki mjög samstilltur. Formaður Framsóknarflokksins kallaði eftir stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og sagði yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar nú telja að álver hefðu jákvæð áhrif á atvinnulífið. Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins gagnrýndi Evrópusambandið og málflutning Evrópusinna.
Málflutningur stjórnarinnar var heldur ekki mjög samstilltur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttur utanríkisráðherra gagnrýndi verk fyrrverandi ríkisstjórnar og þarafleiðandi samstarfsflokks sins mjög harðlega. Valgerður Sverrisdóttir formaður Framsóknarflokksins sem tók fram í upphafi sinnar ræðu að aldrei hefði komið fram vantrauststillaga á tólf ára ferli ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks spurði hvernig bankarnir hefðu getað vaxið þjóðinni jafn mikið yfir höfuð og raun bæri vitni? Ingibjörg Sólrún sagði henni að svara því sjálf. Hún væri fyrrverandi viðskiptaráðherra og það hefði gerst á hennar vakt.
Ögmundur Jónasson þingmaður VG vísaði ábyrgð á efnahagshruninu á hendur ríkisstjórninni og sagði að Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún ættu að fara frá. Hann vitnaði í orð formanns Samfylkingarinnar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar og spurði hverslags veruleikafirring það væri þegar ráðherrann sagðist skilja mótmælendur á Austurvelli vel. Sjálf væri hún örugglega að mótmæla ef hún væri ekki ráðherra.