Greiðslujöfnun verðtryggðra húsnæðislána getur létt verulega
greiðslubyrði slíkra lána á næstu misserum en þegar fram í sækir getur
greiðslubyrðin þó orðið nokkru þyngri en ella. Líklegt er einnig að
heildarlánstími lengist hjá mörgum þeirra sem kjósa greiðslujöfnun,
einkum ef lánstíminn var fremur stuttur fyrir. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Glitnis.
Hagstofan birti í morgun útreikning á greiðslujöfnunarvísitölu í samræmi við nýsett lög um greiðslujöfnun á verðtryggðum fasteignalánum. Í stað neysluverðs er greiðslujöfnunarvísitalan reiknuð í hlutfalli við launavísitölu en síðan dregið frá atvinnuleysishlutfall í viðkomandi mánuði, eins og það kemur fram í tölum Vinnumálastofnunar.
Greiðslubyrði gæti minnkað um fimmtung
„Vísitala neysluverðs eins og hún kemur til verðtryggingar lána hefur hækkað um 15,1% það sem af er ári. Greiðslujöfnunarvísitalan hefur hins vegar hækkað um 7,2% á sama tíma. Má búast við að greiðslubyrði þeirra sem kjósa greiðslujöfnunarleiðina lækki sem þessu nemur strax í desember. Þessi munur mun svo aukast enn meira á komandi mánuðum. Í verðbólguspá okkar sem birtist á dögunum spáðum við því að vísitala neysluverðs muni hækka um 8,4% á næstu 12 mánuðum.
Útlit er hins vegar fyrir að laun muni að jafnaði hækka mun minna auk þess sem atvinnuleysi muni aukast hratt og gæti það farið upp í 8-10% af mannafla á tiltölulega skömmum tíma. Greiðslujöfnunarvísitalan mun því líklega lækka nokkuð á næsta ári og munur greiðslubyrði eftir því hvort stuðst er við hana eða vísitölu neysluverðs gæti því numið allt að 20% að ári liðnu," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.
Þegar
frá líður er raunar líklegt að greiðslubyrði verðtryggðra lána þar sem
greiðslujöfnun er beitt verði þyngri en lána þar sem slíku er sleppt.
Laun hækka að jafnaði hraðar er verðlag þegar til lengri tíma er litið,
hér á landi sem annars staðar. Frá 1990 hefur kaupmáttur launa til að
mynda aukist um 1,6% að meðaltali. Auk heldur mun atvinnuleysi smám
saman minnka á fyrri hluta næsta áratugar og líklega ná jafnvægi á
bilinu 2-3% fyrir miðjan áratuginn.
Bilið á milli greiðslubyrði lána í greiðslujöfnun og annarra lána er því líklegt til að skreppa saman um meira en helming fyrir miðjan næsta áratug og gæti greiðslubyrðin verið orðin svipuð eftir leiðunum tveimur fyrir lok næsta áratugar. Í kjölfarið mun svo greiðslubyrði lána í greiðslujöfnun aukast umfram önnur verðtryggð lán sem nemur kaupmáttaraukningu launa í grófum dráttum, samkvæmt Morgunkorni.
„Fyrir marga mun greiðslujöfnun þó einfaldlega hafa í för með sér að lánstíminn lengist. Þegar afborgun með greiðslujöfnun er lægri en ella hefði orðið er mismunurinn settur í svokallaðan jöfnunarsjóð sem fylgir láninu. Ekki er greitt af höfuðstól þessa sjóðs fyrr en greiðslubyrði samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu er orðin meiri en annars væri eða upphaflegur lánstími er úti. Miðað við ofangreindar forsendur verður hið síðarnefnda ofan á hjá þorra lántakenda að meira eða minna leyti," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.