Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, neitar því ekki að handtakan á Hauki Hilmarssyni aðgerðasinna síðastliðinn föstudag hafi verið illa tímasett. Daginn eftir var boðað til fjöldamótmæla. Margir túlka þetta svo að fyrir lögreglu hafi vakað að nota handtökuna til að hindra Hauk í að mótmæla.
Stefán segir það fráleitt. „Ég get alveg tekið undir að þetta hefði mátt vera með öðrum hætti.“ Taka þurfi meira tillit til aðstæðna í samfélaginu. „Hins vegar var þessi maður ekki undir neinu sérstöku eftirliti hjá okkur. Þess vegna fór bara með hann eins og alla aðra sem eru eftirlýstir. Þetta fór ekki í neina sérmeðferð upp á mitt borð eða annarra embættismanna,“ segir Stefán. Fjöldi manns gerði áhlaup á lögreglustöðina á Hverfisgötu á laugardag til að reyna að frelsa Hauk.