Meginefni fundar Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, í Lundúnum 2. september, var um það að æskilegt væri að færa innstæðureikninga hjá útibúi Landsbankans í London í breskt dótturfélag.
Þetta kemur fram í svari Björgvins við fyrirspurn Sivjar Friðleifssdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, á Alþingi, þar sem hún spurði um efni fundarins.
Í svarinu segir, að á fundinum hafi ráðherrarnir rætt almennt um aðstæður á mörkuðum og viðskipti landanna. Meginefni fundarins hafi verið um að æskilegt væri að færa innstæðureikninga hjá útibúi Landsbankans í London í breskt dótturfélag. Bresk stjórnvöld höfðu unnið að því um nokkurt skeið ásamt íslenskum stjórnvöldum að fá Landsbankann til að flytja innstæður svokallaðra Icesave-reikninga úr útibúinu í breskt dótturfélag.
„Bresk stjórnvöld gerðu mjög stífar kröfur um flutning eigna Landsbankans til Bretlands og um tímamörk fyrir eignaflutninginn. Tilgangurinn með fundinum var að fara fram á að bresk stjórnvöld heimiluðu að innlánsreikningarnir yrðu fluttir í breskt dótturfélag strax, en að Landsbankanum yrði gefinn eðlilegur frestur til skipulegs flutnings á eignum á móti innstæðum þannig að fjármögnunarsamningar bankans röskuðust sem minnst," segir í svarinu.
Í tilkynningu, sem viðskiptaráðuneytið sendi út eftir fundinn, var ekki minnst á Icesave reikninga. Þar segir hins vegar, að á fundinum
hafi ráðherrarnir rætt góð samskipti þjóðanna á sviði fjármálamarkaðar. „Íslensku
bankarnir hafa mikla starfsemi á Bretlandi og er landið stærsti
markaður íslensku bankanna, utan Íslands. Einnig ræddu ráðherrarnir
hvaða lærdóm megi draga af aðstæðum á mörkuðum undanfarna mánuði," segir í tilkynningunni, sem send var út 3. september.
Siv óskaði eftir því að minnisblað um fundinn verði birt, en í svarinu segir að ráðherra hafi ekki tekið saman formlegt minnisblað um fundinn annað en það sem fram komi fram að ofan um efni fundarins.
Auk Björgvins sóttu fundinn af Íslands hálfu Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu, ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu, Jón Sigurðsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu og aðstoðarmaður viðskiptaráðherra.