Kvótakerfið varðaði veginn

Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason. mbl.is/Golli

Háskólabíó hefur reynst of lítil bygging fyrir borgarafundinn sem stendur yfir í kvöld. Stóri salurinn er troðfullur af fólki og sömuleiðis anddyrið. Fólk hefur þurft frá að hverfa vegna plássleysis.

„Stjórnmál og viðskipti eru óholl blanda, eitt sinn voru helmingaskipti reglan á Íslandi. Kaup kaups,” sagði Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor í framsöguræðu á opnum borgarafundi í Háskólabíó fyrir stundu. Hann sagði einkavæðingunni hafa verið ætlað að uppræta þessa skipan, skerpa skilin milli þessara greina, til að dreifa valdi á fleiri og hæfari handa.

„Ríkisstjórnin brást þessu ætlunarverki, tók sjálfa sig fram fyrir og afhenti ríkisbankana mönnum sem voru handgengnir stjórnarflokkunum og höfðu enga reynslu af bankarekstri,” sagði hann og bætti því við að stjórnvöld hafi ekki hafst neitt að þegar bankarnir fóru offari, stíflan hafi brostið.

Þá talaði Þorvaldur um peningamálastefnu síðustu ára og bankastjórn Seðlabankans. „Þrákelkni yfirvalda fyrir hönd krónunnar hefur teflt fjárhagslegu sjálfstæði landsins í tvísýnu, a.m.k. um sinn. Ríkisstjórnina brestur þor til að skipta um stjórn í Seðlabankanum, þótt bankastjórnin hafi hvað eftir annað gert sig seka um alvarleg mistök, sem hafa ásamt öðru svert nafn Íslands í útlöndum. Bankastjórnin verður að víkja án frekari tafar,” sagði Þorvaldur.

Að þessu mæltu hóf fólk í salnum að klappa. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra klappaði m.a. með, þar sem hann sat uppi á sviði. Standandi fagnaðarlæti brutust út í öllum salnum við þessa setningu svo Þorvaldur þurfti að gera hlé á máli sínu.

„Fyrirhugaður flutningur Fjármálaeftirlitið til Seðlabanka herðir enn kröfuna á því að ríkisstjórnin víki, sagði Þorvaldur þá. „Það vekur von að IMF vilji gera öryggisúttekt á Seðlabankanum.“

Þorvaldur hélt áfram og talaði um kvótakerfið, sem hann sagði upphaf ófaranna. „Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið,” sagði hann. Sú rangláta ákvörðun að afhenda útvöldum aðilum auðlindir hafsins, skerti sýn stjórnvalda svo önnur brot fengu einnig að viðgangast að sögn Þorvaldar. Þá tók hann dæmi um pólitíska spillingu við einkavæðingu bankanna. „Varaformaður Framsóknarflokksins hagnaðist svo á einkavæðingu Búnaðarbankans að hann keypti sér þjóðarflugfélagið í kjölfarið. Lét skipa sig Seðlabankastjóra í millitíðinni en entist ekki lengi í því láglaunabasli sem þar ríkti,” sagði Þorvaldur. Hann sagði framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins einnig hafa orðið milljarðamæring við einkavæðinguna.

„Nú býðst ríkisstjórnin sjálf til að rannsaka. Við þurfum enga hvítþvottarbók frá ríkisstjórninni. Frekar þarf sannleiks- og sáttanefnd með erlendum sérfræðingum. Við þörfnumst slíkrar nefndar til að endurheimta traustið sem við þurfum að geta borið hvert til annars, og traust umheimsins. Farsæl samfélagsþróun útheimtir að sagan sé rétt skráð og öllum hliðum hennar til haga haldið. Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Íslendingar og um heimurinn þurfa að vita hvort orðrómurinn á við rök að styðjast og hvað fór úrskeiðis,” sagði Þorvaldur.

„Í þroskuðu lýðræðisríki gæti það ekki gerst að formaður stjórnmálaflokks skipaði sig seðlabankastjóra án mótmæla, annarra stjórnmálaflokka eða fjölmiðla."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert