LÍÚ hótar úrsögn úr SA

Stjórn Lands­sam­bands ís­lenskra út­vegs­manna hef­ur samþykkt ein­róma, að verði Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins beitt fyr­ir inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið muni stjórn­in leggja það til við fé­lags­menn að LÍÚ segi sig úr Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins.

Þetta kem­ur fram í bréfi, sem sent hef­ur verið til fé­lags­manna LÍÚ og Sam­taka fisk­vinnslu­stöðva, í dag. 
 
Seg­ir þar, að frá því að Sam­tök at­vinnu­lífs­ins voru stofnuð hafi það legið fyr­ir að sam­tök­in beiti sér ekki í mál­efn­um sem gangi gegn grund­vall­ar­hags­mun­un ein­stakra aðild­ar­sam­taka. Þess vegna hafi Sam­tök af­vinnu­lífs­ins ekki tekið af­stöðu með eða á móti inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið.

Mik­il breyt­ing hafi nú orðið á mál­flutn­ingi fyr­ir­svars­manna Sam­taka at­vinnu­lífs­ins á síðustu mánuðum án þess að form­legri af­stöðu sam­tak­anna hafi verið breytt. Stjórn­ar­menn í Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins frá aðild­ar­sam­tök­um í sjáv­ar­út­vegi hafa ein­dregið farið þess á leit að Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins verði ekki beitt í mál­inu, held­ur verði það verk­efni ein­stakra aðild­ar­sam­taka að halda skoðun sinni á lofti.  
 
Nú hafi fram­kvæmda­stjórn Sam­taka at­vinnu­lífs­ins ákveðið að fram fari skoðana­könn­un meðal aðild­ar­fyr­ir­tækja um það hvort fyr­ir­tæk­in vilja að Sam­tök at­vinnu­lífs­ins beiti sér fyr­ir aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu.
 
„Við fór­um þess á leit þegar ljóst var að ekki var stuðning­ur fyr­ir því í fram­kvæmda­stjórn Sam­taka at­vinnu­líf­is­ins að halda óbreyttri stefnu að aðild­ar­fyr­ir­tæki Sam­taka at­vinnu­lífs­ins verði spurð um það hvort þau vilji að Sam­tök at­vinnu­lífs­ins beiti sér fyr­ir aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og upp­töku evru þrátt fyr­ir að því fylgi af­sal á yf­ir­ráðum yfir fiski­miðunum við Ísland og að for­ræði á samn­ing­um um sam­eig­in­lega fiski­stofna fær­ist til ESB. Þess­ari ósk okk­ar var hafnað.  Þá fór­um við þess einnig á leit að spurt verði hvort aðild­ar­fyr­ir­tæki Sam­taka at­vinnu­lífs­ins séu hlynnt eða and­víg því að taka upp ann­an gjald­miðil á Íslandi í stað krónu án inn­göngu í ESB. Þess­ari ósk okk­ar var einnig hafnað," seg­ir í bréf­inu.

Und­ir það skrifa Ad­olf Guðmunds­son formaður LÍÚ, Ei­rík­ur Tóm­as­son vara­formaður LÍÚ, Friðrik J. Arn­gríms­son fram­kvæmda­stjóri LÍÚ, Arn­ar Sig­ur­munds­son formaður SF og Gunn­ar Tóm­as­son vara­formaður SF.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert