Góður síldarafli fékkst í Jökulfjörðum í norðanverðu Ísafjarðardjúpi í síðustu viku. Um 80% aflans var síld með hrognum og sviljum. Því er örugglega ekki um íslenska sumargotssíld að ræða og reyndar kemur fátt annað til greina en að síldin sé norsk-íslensk vorgotssíld.
,,Okkur þykja þetta stórmerkileg tíðindi og það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr rannsóknum Hafrannsóknastofnunar á þessari síld,” segir Lárus Grímsson, skipstjóri á Lundey NS, en hann og áhöfn hans fengu fyrir helgina góðan síldarafla inni á Jökulfjörðum í norðanverðu Ísafjarðardjúpi, að því er fram kemur á vef HB Granda.
Að sögn Lárusar hafa fréttir borist af síldargengd í Ísafjarðardjúpi upp á síðkastið og varð það til þess að tvö skip, Faxi RE og Bjarni Ólafsson AK, fóru í síldarleit í Djúpinu um miðja síðustu viku. Lárus segir að vart hafi orðið við síld allt inn undir Reykjanes en hún hafi ekki verið veiðanleg.
,,Við vorum á ferðinni tveimur dögum síðar og vorum búnir að leita nokkuð víða þegar sjómenn á Sædísi frá Ísafirði hringdu í okkur og greindu frá því að það lóðaði á síld inni á Veiðileysufirði. Við fórum því á staðinn en síldina fundum við út af Lónafirði og þar fengum við tæplega 700 tonn í einu kasti. Það var svo fyrir algjöra tilviljun að við komumst að því að síldin var með hrognum og sviljum. Einum úr áhöfninni datt í hug að athuga hvort það væri áta í síldinni og spretti einni upp og þá komu hrognin í ljós.
Við nánari skoðun kom í ljós að um 80% aflans var síld með hrognum og sviljum. Meðalvigtin á síldinni var um 330 grömm og að mínu viti kemur ekki annað til greina en að þarna hafi norsk-íslensk síld blandast íslenskri sumargotssíld. Hvað hún er að gera á þessum stað og árstíma er svo eitthvað sem fiskifræðingarnir verða að segja okkur,” segir Lárus en þess má geta að í aflanum var töluvert um mjög stóra síld eða allt upp í 450 gramma þunga.
Eftir að Lundey NS var á ferðinni í Jökulfjörðum þá komu þrjú önnur skip, Börkur NK, Súlan EA og Vilhelm Þorsteinsson EA á svæðið og munu þau hafa fengið einhvern afla áður en síldin dreifði sér. Lárus segir að full ástæða sé til þess að kanna síldargengdina í Ísafjarðardjúpi betur og t.a.m. hafi hann fengið þau tíðindi frá smábátasjómönnum að fyrir utan Hnífsdal hafi verið stór síldartorfa sem tekið hafi um átta mínútur að sigla yfir, að því er fram kemur á vef HB Granda.
Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun sagði í samtali við heimasíðu HB Granda að sýnin frá Lundey NS væru komin í hús og farið yrði í það síðar í dag að skoða síldina.
,,Þessar fréttir koma mjög á óvart og fátt bendir til annars en að þessi síld sé úr norsk-íslenska síldarstofninum. Reyndar er talið að til séu leifar af gamla íslenska vorgotssíldarstofninum en ég tel mjög ólíklegt að síldin í Jökulfjörðunum sé úr þeim stofni. Okkur er hins vegar nokkur vandi á höndum hvað varðar greiningu á síldinni því ekki hefur enn tekist að þróa aðferð til erfðagreiningar á síld. Það hefur mikið verið reynt en ekki skilað nægilegum árangri. Lögun á kvörnum hefur einnig verið notuð í þessu skyni,” segir Guðmundur Óskarsson.