Heildarvísitala hörpudisks mælist áfram í lágmarki eins og undanfarin ár eða aðeins um 13% af meðaltali áranna 1993-2000. Þetta er niðurstaða árlegrar stofnmælingar Hafrannsóknastofnunarinnar á hörpudiski í Breiðafirði sem var gerð dagana 18.-23. október sl.
Árgangur hörpudisks 2007 mældist afar slakur líkt og sjá mátti um
árgang 2006 fyrir ári. Tekið er fram á vef Hafró að endanlegir útreikningar á stærð 2006 árgangsins
gefa enn lélegri niðurstöðu en bráðbirgðatölur sem sýndar voru haustið 2007 gáfu
til kynna.
„Ef litið er til einstakra veiðisvæða hefur þróun stofnstærðar síðan árið 2000
alls staðar verið á niðurleið. Ástand miða er þó langskást á sundunum fram af
Stykkishólmi, þar sem tiltölulega lítil breyting hefur orðið á stofnvísitölu
allt frá haustinu 2002. Þetta er einnig athyglisvert í ljósi þess að sóknin var
jafnan hvað mest á þessum svæðum á árum áður auk þess sem nýliðun mældist þar
jafnbetri en víðast annars staðar.
Þó að vísitala stofnstærðar sé áfram í
lágmarki mældust nýleg dauðsföll (tómar skeljar samhangandi á hjör) minni en á
undanförnum árum. Ennfremur hefur eldri hluti stofnsins, þ.e.
hrygningarstofninn, vaxið frá árinu 2007-2008 en við minnkun stofnsins hefur
skeljum í öllum stærðarflokkum veiðistofnsins (60 mm og stærri) fækkað allt frá
árinu 2000-2007, vegna dauðsfalla sem jukust með stærð og aldri," að því er fram kemur á vef Hafró.
Hrunið
sem varð í stofninum eftir aldamótin 2000 vegna mikilla dauðsfalla af
náttúrulegum ástæðum er nú að mestu leyti rakið til frumdýrasýkingar sem greind
var á fisksjúkdómadeild Tilraunastöðvarinnar á Keldum. Í leiðangrinum voru tekin
sýni á þremur stöðum til rannsóknar í tilraunastöðinni og munu niðurstöður
þeirra rannsókna skera nánar úr um hvort frumdýrasýking í hörpudisksstofninum í
Breiðafirði sé í rénum miðað við undanfarin ár eins og vísbendingar voru um í
nýloknum leiðangri.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:
Stofnstærð hörpudisks er áfram í lágmarki haustið 2008, aðeins um 13% af meðaltali áranna 1993-2000.
Tíðni nýdauðra skelja, þ.e. tómar skeljar samhangandi á hjör, mælist minni en undanfarin ár sem bendir til þess að náttúruleg dauðsföll hafi minnkað.
Eldri skeljar í stofninum hafa vaxið frá því síðasta mæling var gerð haustið 2007 sem bendir til þess að dauði fullorðinna skelja vegna frumdýrasýkingar sé í rénun.
Allir árgangar frá árabilinu 2004-2007 eru lélegir þannig að ekki er gert ráð fyrir neinni umtalsverðri nýliðun í veiðistofninn á komandi árum.