Sýslumanninum á Blönduósi bar skylda að lögum til að auglýsa starf deildarstjóra innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar sem starfrækt er við embætti sýslumannsins. Því var óheimilt að ráða núverandi deildarstjóra í starfið eða fela henni það án undangenginnar auglýsingar. Þetta er álit umboðsmanns Alþingis.
Karlmaður leitaði til umboðsmanns 1. desember 2006 og kvartaði yfir flutningi á lögreglumanni úr starfi lögreglumanns í starf deildarstjóra innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar við embætti sýslumannsins á Blönduósi. Starfsemin hófst í apríl 2006 en innheimtumiðstöðin er rekin við embætti sýslumannsins á Blönduósi samkvæmt ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra. Innheimtumiðstöðin tók við verkefnum sem áður voru á hendi 26 sýslumanns- og lögreglustjóraembætta á landinu.
Kvörtun mannsins laut að því að starfið hefði aldrei verið auglýst og taldi að sér hefði verið mismunað, þar sem hann átti þess ekki kost að sækja um starfið. Í kvörtuninni taldi maðurinn að um algerlega nýtt starf væri að ræða, sem með engu móti hefði verið hluti af þeirri starfsemi sem fyrir var hjá sýslumannsembættinu.
Athugun umboðsmanns laut að því hvort sýslumaðurinn á Blönduósi hafi getað falið tilteknum starfsmanni sem áður gegndi starfi lögreglumanns við embætti hans að taka við starfi deildarstjóra nýrrar innheimtumiðstöðvar hjá embættinu, án þess að slík breyting fæli í sér að skylt væri að auglýsa síðarnefnda starfið.
Samkvæmt reglum sem fjármálaráðherra hefur sett skal auglýsa laust embætti í Lögbirtingablaði og skal umsóknarfrestur ekki vera skemmri en tvær vikur frá útgáfudegi blaðsins. Önnur störf skulu auglýst opinberlega samkvæmt reglum sem settar skulu af fjármálaráðherra.
Umboðsmaður telur ótvírætt að starf deildarstjóra innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar hjá sýslumanninum á Blönduósi sé ekki embætti og því hafi borið að auglýsa starfið með a.m.k. tveggja vikna umsóknarfresti, samkvæmt reglum fjármálaráðherra.
Umboðsmaður segir þessa reglu skýra og skipti þá ekki máli þótt stjórnvald, í þessu tilviki sýslumaðurinn á Blönduósi, hafi talið hagfelldara að ráða einstakling í laust starf án auglýsingar.
Það er því niðurstaða umboðsmanns að skylt hafi verið að auglýsa starfið. Jafnframt hafi verið óheimilt að ráða í starfið án undangenginnar auglýsingar þar sem öllum þeim sem áhuga höfðu á að sækja um starfið hefði verið gefinn kostur á að leggja fram umsókn.
Umboðsmaður telur ekki unnt að fullyrða hvort slíkir annmarkar hafi verið á skipun deildarstjórans að fella eigi ráðningarsamning við hann úr gildi. Hins vegar beinir umboðsmaður þeim tilmælum til sýslumannsins á Blönduósi að hann taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu við ráðningu í störf á vegum embættisins og þá jafnframt við ráðstöfun á starfi deildarstjóra innheimtumiðstöðvarinnar við lok gildandi ráðningarsamnings þess sem gegnir því starfi.