Valgerður óviss um formannsslag

Mynd Austurglugginn

„Ég hefði áhuga á að leiða flokkinn ef ég væri sannfærð um að ég sé best til þess fallin. Ég er alls ekki sannfærð um það í dag. Ég hef enda svo mikið álit á unga fólkinu,“ sagði Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins, á fundi framsóknarmanna á Reyðarfirði í gær. Austurglugginn greinir frá. Valgerður sagði ýmsa innan flokksins vera að velta fyrir sér framboði.

Að sögn Austurgluggans var á fundinum nokkuð rætt um ábyrgð Framsóknarflokksins á fjármálahruninu. Valgerður sagðist undrast þau orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá því á laugardag að Samfylkingin bæri enga ábyrgð á hinni íslensku krísu.

„Mér fannst djarft af henni að láta þau orð falla, því þannig er þetta nú ekki Spurningin er svo hversu mikla ábyrgð Framsóknarflokkurinn og ég sem fyrrverandi bankamálaráðherra berum. Auðvitað ber ég ábyrgð sem fyrrverandi ráðherra bankamála. Það var á minni vakt sem viðskiptaráðherra, að Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru seldir,“ sagði Valgerður Sverrisdóttir á fundi framsóknarmanna á Reyðarfirði í gær.

Hún bætti við að það hafi ekki verið vitlaust að selja bankana en benti á að bankarnir hafi þá ekki verið neitt á við það sem þeir urðu. Þá hafi heldur ekki verið farnar að koma neinar viðvaranir um að illa gæti farið.

„Bullandi og ódýrt lánsfé var í heiminum og á grundvelli þessi gerðist þetta allt saman og bankarnir gátu stækkað svona mikið. Á minni tíð í ráðuneytinu var lögum breytt um Fjármálaeftirlitið og það eflt mjög þannig að það varð miklu sjálfstæðara og starfaði án þess að ráðherra hefði þar nokkur afskipti. Nú ætla ég ekki að fullyrða að Fjármálaeftirlitið hafi unnið vel og einhverjar líkur eru á að svo sé ekki, fyrst svona fór.“

Austurglugginn.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert