Vantrauststillaga felld

Þingmenn ræddu um vantrauststillögu í allan dag.
Þingmenn ræddu um vantrauststillögu í allan dag. mbl.is/Ómar

Tillaga um vantraust á ríkisstjórnina var felld á Alþingi í kvöld með 42 atkvæðum stjórnarliða og Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, gegn 18 atkvæðum stjórnarandstæðinga en þrír þingmenn voru fjarverandi.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og fyrsti flutningsmaður tillögunnar, sagði m.a. í umræðunni að eina málsvörn ríkisstjórnarinnar væri að hún standi í björgunarstarfi og óvissa fylgi kosningum. Spurði Steingrímur hvort björgunin væri að takast og hvort  óvissan gæti aukist. Svaraði hann að svarið við báðum spurningunum væri neitandi. Stjórnarandstaðan væri málsvari þess mikla meirihluta þjóðarinnar, sem vilji breytingar og breytingum verði ekki náð fram nema með kosningum.  

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að umræðan um vantrauststillöguna, sem stóð yfir í sex og hálfa klukkustund, hefði, ef eitthvað væri, þjappað ríkisstjórninni og stuðningsmönnum hennar saman.  Þá hefði hún leitt í ljós hverskonar glapræði það væri, að efna til þingkosninga við núverandi aðstæður. Umræðan hefði í raun verið vantraust á stjórnarandstöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka