Verðtryggingin verði fryst

Hluti fundargesta í Háskólabíói í kvöld.
Hluti fundargesta í Háskólabíói í kvöld. mbl.is/Golli

Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri frá Akureyri, gerði harða hríð að verðtryggingu lána, sem verið hefur við lýði á Íslandi síðustu áratugi, á borgarafundi í Háskólabíó í kvöld. Hann sagði að við núverandi aðstæður væri jafnræði brotið á margvíslegan hátt.

Benedikt lagði til að vísitölumæling Hagstofunnar verði frystur með lögum, t.d. frá og með 1. september 2008 eða jafnvel fyrr, frysta eigi pappíra þar til komið er yfir mesta verðbólgukúfinn og þar til komið er yfir þá aðgerð að setja krónuna á flot.

Þá talaði Benedikt um þau hundruð milljarða sem sett hafa verið í að lágmarka tjón í peningamarkaðssjóðum bankanna og nefndi loforð stjórnvalda um að vernda innistæður í bönkum, ,,þ.e. þeirra sem eiga peninga,” sagði Benedikt. Að vísu séu aðrir hópar ekki að njóta sömu kjara vegna aðgerða ríkisvaldsins, enn sé þar verið að ögra jafnræðinu.

Þá talaði hann um Íbúðalánasjóð og áróðurinn fluttur hafi verið gegn þeirri stofnun allt frá einkavæðingu bankanna. Ríkistjórninni, sem beini milljarðahundruðum í sértækar aðgerðir til að rétta við einstaka sjóði í bankakerfinu, verði ekki skotaskuld úr því að rétta við það sem misfarist hafi í rekstri ÍLS, rétti af stöðu hans.

Fólksflótti gæti brostið á

Þá varaði hann við fólksflótta frá Íslandi ef ekki yrði brugðist við verðtryggingu lána, sem færi hækkandi með hverjum deginum. Ef íbúðalán fái að hækka áfram með vísitölu sjái fólk sér þann kost einan að hætta að borga og flytja úr landinu eigi það þess kost. Komast eigi út úr séríslenskri verðtryggingu og hafna séríslensku ranglæti. ,,Munum að verðtryggingin er ekki náttúrulögmál, hún er mannanna verk og það er þeirra hlutverk að breyta henni,” sagði hann við alþingismenn sem sátu á sviðinu fyrir aftan hann.

Þá gerði hann að umtalsefni þörfina á því að skipta um fólk í forystunni í stofnunum og stjórnmálum. Hann sagði að þyngja þurfi kröfuna á endurnýjun í framlínunni, tiltekt  í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Öðru fremur ætti þó að kalla á markvissar aðgerðir stjórnvalda. „Áfram Ísland,” sagði hann í lokin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka