Enn reynt við útvarp frá Alþingi

Þingsályktunartillaga um að hafinn verði undirbúningur þess að útvarpa þingfundum beint um allt land á sérstakri útvarpsrás hefur verið lögð fram á Alþingi. Þetta er í fjórða sinn sem slík tillaga kemur fram.

Það eru tíu þingmenn úr öllum flokkum sem standa að tillögunni nú, líkt og á síðasta löggjafarþingi. Tillaga um beint útvarp frá Alþingi á sérstakri rás, var fyrst lögð fram vorið 2005 af þingflokki Frjálslynda flokksins. Tillagan komst ekki á dagskrá. Aftur var reynt haustið 2006 og þá hafði Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG bæst í hópinn. Sú tillaga komst ekki á dagskrá.

Þriðja tilraun var gerð á síðasta löggjafarþingi og þá höfðu bæst við fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar bæst í hóp flutningsmanna. Tillagan hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt nær óbreytt.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að útvarp frá Alþingi hefjist ekki síðar en þegar þing kemur saman haustið 2009.

Kolbrún Halldórsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Í greinargerð segir að enginn vafi sé á, að beint útvarp frá þingfundum mundi gera stærstum hluta landsmanna kleift að fylgjast með. Útvarpstæki séu mjög víða og mun auðveldara að fylgjast með útsendingum í hljóðvarpi en sjónvarpi á meðan öðrum verkefnum er sinnt.

Það sé mat flutningsmanna að beinar útvarpssendingar frá Alþingi ættu að vera sjálfsagður hlutur í nútímalýðræðisþjóðfélagi, á öld upplýsinga og fjölmiðlunar. Þær séu og í anda fyrri málsliðar 57. gr. stjórnarskrárinnar um að fundir Alþingis skuli haldnir „í heyranda hljóði“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert