Íslendingar vilja Norðmanninn burt

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur notið aðstoðar Björn Richard Johansen.
Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur notið aðstoðar Björn Richard Johansen. mbl.is/Golli

Norska ríkisútvarpið greinir frá því á vef sínum í dag - undir fyrirsögninni „Islendingar krev nordmann fjerna“ - að íslenskir stjórnmálamenn krefjist þess að Björn Richard Johansen láti af störfum sem ráðgjafi Geirs H. Haarde forsætisráðherra.

Johansen, sem er fyrrum framkvæmdastjóri samskiptasviðs gamla Glitnis, hefur aðstoðað forsætisráðherra undanfarnar vikur. Geir greindi frá því á borgarafundinum sem fram fór í Háskólabíói í gærkvöldi að hann hefði ráðið Johansen til að aðstoða sig í samskiptum við erlenda fjölmiðla.

„Ég var spurður fyrir nokkrum vikum  hvort ég gæti aðstoða við að setja upp neyðar- og viðbúnaðarskrifstofu fyrir Ísland. Ég hafði hitt Geir nokkrum sinnum þegar ég vann hjá Glitni. Þegar ég var beðinn um að taka þetta verkefni að mér þá fannst mér ég ekki geta skorast undan því,“ segir Johansen, sem hefur gengið undir nafninu „hernaðarsérfræðingurinn“, í samtali við NRK.

 „Mitt hlutverk er að samræma allan neyðarviðbúnað. Ég reyni að gera mitt besta,“ segir hann ennfremur.

Hér má sjá viðtalið í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert