Orkuöflun í mikilli óvissu

Frá vinnu við járnabindingar á framkvæmdasvæði álvers Norðuráls í Helguvík …
Frá vinnu við járnabindingar á framkvæmdasvæði álvers Norðuráls í Helguvík . Víkurfréttir

Orkuöflun í til álvers Norðuráls í Helguvík er í mikilli óvissu eftir hrun bankanna og hækkandi gengi á þeim erlendu lánum sem orkufyrirtækin hafa tekið.

Eins og fram hefur komið vilja eigendur Norðuráls stækka álverið úr 250 þúsund í 360 þúsund tonn og reisa það jafnvel í fjórum 90 þúsund tonna áföngum. Samanlögð orkuöflun fyrir 250 þúsund tonna álver er um 430 MW en bæta þarf við um 170 MW fyrir 360 þúsund tonna álver. Hafa forráðamenn Norðuráls verið í viðræðum við orkufyrirtækin um þessar breyttu forsendur en erlendir bankar hafa m.a. gert þá kröfu að álverið rísi í fleiri áföngum og þá yfir lengri tíma, bæði til að auðvelda fjármögnun og orkuöflun.

Ljóst er að Norðurál nær ekki þessari viðbótarorku nema ná samningum við Landsvirkjun. Norðurál hafði gert samninga og viljayfirlýsingar með Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Hitaveitu Suðurnesja (HS) um orku til Helguvíkurálversins. Engir samningar voru þá gerðir við Landsvirkjun, en eftir að beiðni til stjórnvalda í byrjun október sl. um stærra álver var lögð fram hafa viðræður átt sér stað við Landsvirkjun. Það staðfestir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Hann segir jafnframt að stjórn fyrirtækisins hafi ekki breytt þeirri yfirlýsingu sem gefin var út fyrir um ári. Þá kom fram að Landsvirkjun myndi ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hygðust byggja ný álver á Suður- og Vesturlandi. Var þetta gert í tengslum við yfirlýsingu um að Landsvirkjun ætlaði í viðræður um raforkusölu til netþjónabúa og kísilhreinsunar, með orku úr virkjunum í neðri hluta Þjórsár.

Þorsteinn segir stjórn Landsvirkjunar enga afstöðu hafa tekið til beiðni Norðuráls nú. Aðeins hafi óformlegar viðræður farið fram og Norðurál kynnt sín áform. „Þetta er einn af okkar stóru viðskiptavinum og við höfum fengið að heyra hvað þeir eru að spá. Engar samningaviðræður hafa hins vegar farið fram,“ segir Þorsteinn en Landsvirkjun hefur haldið áfram undirbúningi að virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Þannig munu skipulagsmál vegna Urriðafossvirkjunar skýrast í byrjun næsta árs.

Óvissa hjá OR

Vegna stóraukins fjármagnskostnaðar og vanda við endurfjármögnun eru frekari virkjunarframkvæmdir hjá Orkuveitu Reykjavíkur í óvissu. Á meðan svo er getur fyrirtækið ekki skuldbundið sig til frekari orkuöflunar til stórra kaupenda, segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR. Hann segir forráðamenn Norðuráls hafa látið Orkuveituna vita um breyttar áætlanir, en enn sé ekki búið að uppfylla skilyrði fyrri samnings, þ.e. að útvega 100 MW til 1. áfanga álversins. Óvissa sé um Hverahlíðarvirkjun og 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar, sem áttu að útvega orku til Helguvíkur.

Hitaveita Suðurnesja ætlaði að útvega 100-150 MW til 1. áfanga álversins í Helguvík. Júlíus Jónsson forstjóri segir að með breyttum forsendum þurfi að ræða að nýju við Norðurál. Lengri framkvæmdatími geti skipt miklu fyrir veituna. „Við teljum okkur enn geta útvegað þá orku sem við höfðum skuldbundið okkur til,“ segir Júlíus og vísar þar til fyrri viljayfirlýsinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert