Morgunblaðið hefur óskað eftir því að fá upplýsingar um hvaða lögaðilar hafa falast eftir eignum bankanna þriggja, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, sem skilanefndir bankanna, á vegum Fjármálaeftirlitsins, vinna nú að því að koma í verð.
Óskað var eftir upplýsingum um hvers eðlis tilboðin væru, það er hversu háar fjárhæðir væri um að ræða og svo framvegis.
Vísað var til þess í beiðninni að við ráðstöfun eigna á vegum ríkisins væri gagnsæi meginreglan samkvæmt lögum. Þá var einnig vitnað til þess í beiðninni að ráðherrar í ríkisstjórn hefðu talað fyrir því opinberlega, þar á meðal Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, að starf skilanefndanna ætti að vera gagnsætt. Skilanefndir bankanna, sem Fjármálaeftirlitið beindi beiðni Morgunblaðsins til, höfðu ekki svarað beiðni blaðsins þegar það fór í prentun.