Segir lögreglu ekki hafa varað við piparúðaárás

mbl.is/Júlíus

Lögreglan úðaði piparúða á mótmælendur í anddyri lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu án nokkurrar viðvörunar. Þetta fullyrðir Anna Helgadóttir, móðir 16 ára stúlku sem fékk piparúða í andlitið. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vísar fullyrðingu móðurinnar á bug.

„Það var kallað fram á hópinn þegar menn voru farnir að berjast í gegnum hurðina með lurkum og grjóti að ef þeir færu ekki burtu yrði úðað piparúða yfir hópinn. Þetta er alveg skýrt,“ segir Stefán.

„Ég styð hvorki ofbeldi né óeirðir og ég skil vel að lögreglan hafi þurft að bregðast við vegna þess hvernig staðan var orðin. Það var hins vegar engin viðvörun gefin,“ fullyrðir Anna Helgadóttir.

Hún segir andrúmsloftið hafa breyst á augnabliki eftir að sparkað var í hurðina á lögreglustöðinni og rúða brotnaði. „Það teygði sig einhver inn og opnaði dyrnar. Þá má segja að ég hafi áttað mig á því að aðstæðurnar væru orðnar hættulegar en um leið var ég búin að missa af tækifærinu til þess að kippa dóttur minni úr þvögunni sem hún þrýstist með inn.“ Að sögn Önnu var dóttir hennar viðþolslaus af sársauka þegar hún kom út. „Hún sá ekkert og hana logsveið í andlitið.“

Það er skoðun Önnu að vatn hefði getað haldið mótmælendum frá. „Hins vegar hefði ekki þurft að fara svona hefði lögreglan strax komið út og róað fólk áður en það braust inn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert