„Við fengum sýni úr síldinni og þau gáfu allt aðra niðurstöðu heldur en áhöfnin á Lundey NS hafði gefið okkur. Það var ekki nema 1-2% af síldinni vorgotssíld, afgangurinn var venjuleg íslensk stórsíld. Þessi síld er svipuð og veiddist oft út á Halanum fyrir 5-6 árum,“ segir Guðmundur Óskarsson, fiskifræðingur hjá Hafró í samtali við vef Bæjarins besta.
Hann segist vonast til að geta fengið fleiri sýni úr þessum afla til þess að geta sagt til um hlutfall síldarinnar.
Guðmundur segir síldina dvelja á þessum slóðum því hún sé að leita í kaldari sjó við strendurnar í Jökulfjörðunum. „Það er meiri kólnun í sjónum þar og leitast síldin eftir orkusparnaði á þessum árstíma því hún er ekki í fæði. Ef það er eitthvað af vorgotssíld í þessum afla þá er þetta væntanlega norsk-íslensk síld en við teljum að svo sé ekki út frá þeim sýnum sem við fengum,“ segir Guðmundur í samtali við vef bæjarins besta.