Útlánasafn Landsbanka, Kaupþings og Glitnis óx um 3.541 milljarð króna frá júnílokum 2007 fram á mitt þetta ár. Gengisfall krónunnar í byrjun árs skýrir hluta af hinum mikla vexti. Raunaukning útlána var samt sem áður, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, um 1.300 milljarðar króna.
Á tímabilinu var mikil lausafjárkreppa í heiminum og margar lánalínur bankanna höfðu þegar lokast.
Frá miðju ári 2007 þar til í lok júní síðastliðins jukust útlán Landsbankans til viðskiptavina alls um 1.004 milljarða króna, eða um 64 prósent. Þau voru þá 2.571 milljarður króna. Hluti af þessum vexti skýrist af gengisfalli krónunnar en ef tekið er tillit til gjaldmiðlasveiflna jukust útlán Landsbankans á þessu tímabili um 31,3 prósent.
Útlán Kaupþings námu 4.169 milljörðum króna í lok júní síðastliðins og höfðu þá aukist um rúma 1.500 milljarða króna á einu ári. Þegar tekið er tillit til gengisfalls krónunar uxu útlán Kaupþings um rúma 550 milljarða króna, eða 21,2 prósent á tímabilinu.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að útlán Glitnis frá miðju ári 2007 fram á mitt þetta ár hefðu aukist um þúsund milljarða króna, eða um 62 prósent. Þar hafði veiking krónunnar einnig töluverð áhrif en raunaukning útlána var um 23,5 prósent.