Lögreglan telur ljóst að frá 5. október 2007 til 12. september 2008 hafi tæpar 250 milljónir króna verið greiddar inn á bankareikning einstaklings sem er grunaður um að eiga aðild að peningaþvætti og auðgunarbrotum. Upphæðin var ágóði af gjaldeyrisviðskiptum sem maðurinn stóð að ásamt forstöðumanni verðbréfamiðlunar hjá Virðingu hf. Sá liggur undir grun um að hafa misnotað sér starfsstöðu sína til að tryggja ágóða af viðskiptunum.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í gær gæsluvarðhaldskröfu yfir forstöðumanninum. Dómurinn taldi ekki vera slíkan grun um refsivert athæfi hjá hinum kærða að heimilt væri að hneppa hann í gæsluvarðhald. Maðurinn var handtekinn á mánudag þegar hann kom frá Dúbaí.
Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra gerði húsleit hjá Virðingu sl. föstudag og handtók í kjölfarið tvo meinta samstarfsmenn forstöðumannsins. Hvorugur þeirra vinnur hjá Virðingu. Annar var úrskurðaður í gæsluvarðhald en sleppt í gær. Rannsókn málsins snýr ekki að Virðingu heldur meintum brotum forstöðumannsins og meintra tveggja samverkamanna hans.
Forstöðumaðurinn neitaði því fyrir dómi að hafa gerst sekur um peningaþvætti eða önnur auðgunarbrot.