Sá maður sem greiðir atkvæði gegn vantrauststillögu er þar með formlega orðinn hluti af stuðningsmönnum ríkisstjórnar, að sögn Jóns Magnússonar, formanns þingflokks Frjálslynda flokksins. Orð Jóns féllu þannig um kollega hans í þingflokki frjálslyndra, Kristin H. Gunnarsson, sem greiddi atkvæði gegn vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Alþingi sl. mánudag.
Um það hvort eftirmál yrðu af málinu sagði Jón að það yrði að koma í ljós. „Álit mitt á honum hefur ekkert breyst,“ sagði Jón. „En sjáðu til. Maður sem greiðir atkvæði gegn vantrauststillögu, hann er þar með formlega orðinn hluti af stuðningsmönnum ríkisstjórnar. Það liggur fyrir, er bara hin formlega skilgreining á stjórn og stjórnarandstöðu,“ sagði Jón. Hann sagðist líta andstöðu Kristins við tillöguna alvarlegum augum. „Það er að mínu viti mjög alvarlegt mál þegar lítill flokkur eins og Frjálslyndi flokkurinn getur ekki gengið í takt,“ sagði hann.
Jón sagðist reikna með að málið yrði tekið fyrir hjá flokknum. „Ég býst við að flokksmenn vilji ræða þetta, já.“ Aðspurður hvort hann hefði eftir sem áður gott álit á Kristni sagðist Jón ekkert hafa sagt um það. „Ég sagði að álit mitt á honum hefði ekkert breyst. Það sagði ekkert um að ég hefði gott álit á honum,“ sagði þingflokksformaðurinn. Kristinn gerði grein fyrir atkvæði sínu þannig m.a. að yrði vantrauststillagan samþykkt myndi vinna stjórnvalda færast frá lausn á aðsteðjandi vanda yfir í baráttu um hylli kjósenda. Jafnframt sagði hann að það væri andstætt hagsmunum þjóðarinnar, ef þing yrði rofið nú og boðað til alþingiskosninga.
Kristinn sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann hefði talið óráð að leggja fram vantrauststillögu á þessu stigi, nú bæri mönnum að einbeita sér að því að ná stjórn á ástandinu. Hann sagðist ekki með atkvæði sínu vera að hverfa úr stjórnarandstöðu. „Ég var með þessu að ítreka þá skoðun mína að nú væri mest um vert að vinna nauðsynlegt verk til að styrkja stöðu heimila og fyrirtækja,“ sagði Kristinn. „Menn yrðu að einbeita sér að því verkefni og leggja til hliðar hefðbundið stjórnmálaskak milli stjórnar og stjórnarandstöðu.“