Atvinnuleysi hefur aukist hröðum skrefum undanfarna daga.
Í gær var 6.441 skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun, 3.754 karlar og 2.687 konur. Í október voru 3.106 skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun og hefur atvinnuleysið meira en tvöfaldast síðan þá.
Atvinnuleysi er langmest á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru 3.984 skráðir atvinnulausir. Á Suðurnesjum voru 958 skráðir atvinnulausir og 660 á Norðurlandi eystra. Minnst var atvinnuleysið á Vestfjörðum, en þar voru 43 skráðir atvinnulausir í gær.
Atvinnuleysi mælist nú um 3,7% á landsvísu, en áætlað er að um 175 þúsund manns séu á vinnumarkaði. Er það svipað atvinnuleysi og mældist árið 2003. Árið 1993 fór atvinnuleysi yfir 7% af vinnufærum mönnum.
Aðeins ein hópuppsögn hefur borist Vinnumálastofnun undanfarna daga. Hins vegar má búast við einhverjum hópuppsögnum í lok vikunnar, en þær eru venjulega tilkynntar í lok mánaðar.