Dauðaslysum og öðrum alvarlegum slysum í Reykjavík fækkaði um 46% á árunum 2005-2007, sé tekið mið af árabilinu 1992-1996. Voru sjö dauðaslys í Reykjavík 1992 en sú tala var komin niður í tvö að meðaltali á árunum 2002 til 2007.
Segir Stefán Agnar Finnsson, yfirverkfræðingur hjá Umhverfis- og samgöngusviði, árangurinn góðan. Var stefnt að 50% fækkun slíkra slysa í umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar. Ekki tókst hins vegar jafn vel að fækka umferðaróhöppum þar sem að börn og unglingar áttu hlut. Slösuðust 57 börn 15 ára og yngri i umferðarslysum á árinu 2007 miðað við 51 árið 1992.
Minniháttar slys á fólki í Reykjavík á tímabilinu 2006-2007 voru að meðaltali 325, en 525 á árinu 1996. Fækkun er því 38% og fækkaði slysum á gangandi vegfarendum einnig um 38% á sama tíma.
Slysum á ökumönnum bifhjóla hefur hins vegar fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Voru slysin 40 árið 2007, miðað við 18,7 að meðaltali á þriggja ára tímabili 1996 til 1998. Er fjölgunin 114%. Bifhjólum í Reykjavík hefur fjölgað frá 1.500 á árunum 2002-2003 í yfir 5.000 árið 2007.
Í nýrri umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar 2008-2013 er lagt til að iðka rannsóknir á fjölgun á hjólreiða- og bifhjólaóhappa og leggja grunn að mótvægisaðgerðum. Fækka þannig tilteknum tegundum óhappa s.s. aftanákeyrslum, vinstribeygjuslysum og hjólreiðaslysum. Efla hraðatakmarkanir í húsa- og safngötum til að fækka slysum á gangandi vegfarendum og hjólreiðamönnum.
Þá er einnig sett það markmið sett að fækka dauðaslysum og öðrum alvarlegum umferðarslysum um 50% fyrir árið 2018, sé miðað við meðaltal áranna 2003-2007 og verðu sérstök áhersla lögð á að fækka slysum á börnum.