Fáir að fara að byggja í miðbænum

mbl.is/Júlíus

 Verði margra ára töf á því að reist verði fyrirhugað verslunarhúsnæði í miðborginni vegna efnahagskreppunnar þarf hugsanlega að meta hvort lagfæra eigi gömul og niðurnídd hús sem víkja áttu fyrir nýjum byggingum, að sögn Ólafar Örvarsdóttur, skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar sem viðurkennir að hús sem neglt hafi verið fyrir eða ekki gerð upp séu lýti á miðborginni. Samkvæmt vinnureglum má ekki rífa húsin fyrr en sýnt hafi verið fram á hvað koma eigi í staðinn.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Samson Properties sem á tugi fasteigna við Skúlagötu, Hverfisgötu, Laugaveg, Vitastíg og Frakkastíg, telur að fáir séu að fara byggja mikið upp í miðbænum eins og staðan er nú. „Menn reyna í besta falli að klára það sem þeir eru með í vinnslu,“ segir Ásgeir. Aðeins tvö húsa Samson Properties á svæðinu eru auð, samkvæmt upplýsingum frá félaginu.

Ágúst Friðgeirsson hjá ÁF-Húsum ehf. sem á fimm fasteignir við Laugaveg og Vatnsstíg segir enn stefnt að því að byggja verslunarhúsnæði á svæðinu með íbúðum fyrir ofan. „En auðvitað gæti það breyst miðað við þróun mála. Útlitið er ekki glæsilegt. Það er búið að halda manni í gíslingu með fleiri hundruð milljónir króna í þrjú ár. Ekki lækka skuldirnar við það. Náist ekki samkomulag við borgaryfirvöld um endurbyggingu á þeim húsum sem eiga að halda sér á Laugaveginum geri ég kröfu um að fá að byggja eftir gildandi deiliskipulagi en það miðast við að þessi hús fari. Að sögn Ágústs eru þrjár fasteignir ÁF-Húsa auðar, ein við Vatnsstíg og tvær við Laugaveg. „Það er neglt fyrir og við erum með daglegt eftirlit með þessum húsum þar sem hústökumenn höfðu hreiðrað um sig.“ Það er mat Ágústs að nánast allar fasteignirnar séu ónýtar.

Skipulagsstjóri segir að verði engar framkvæmdir um langa hríð sé eðlilegast að eldri hús verði gerð upp og þeim komið í notkun. „Við viljum ekki að bærinn sé skörðóttur. Það eru skiptar skoðanir um hversu ónýt húsin eru. Ef menn ætla ekkert að gera í mörg ár hlýtur alltaf að vera hagkvæmara að gera eitthvað fyrir húsin og koma þeim í notkun. Byggingarfulltrúi þarf að meta ástand húsanna í samvinnu við eigendur. Mörg húsanna hafa ekki endilega verið keypt til niðurrifs.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert