Alls höfðu 90% erlendra ferðamanna í Reykjavík góða eða frábæra reynslu af borginni á liðnu sumri, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Höfuðborgarstofu. Er þetta jákvæðara viðhorf en mælst hefur nokkru sinni fyrr í slíkri könnun en þær hafa verið gerðar frá árinu 2004. Þ
egar spurt var um þá afþreyingu sem gestir Reykjavíkur nýta sér kom í ljós að 71% fóru á veitingahús og 60% aðspurðra versluðu. Einnig vex það jafnt og þétt að gestir heimsæki söfn og sýningar en 39% gesta völdu að sækja heim söfn og sýningar í borginni. Að vanda eru sundlaugarnar vinsæll viðkomustaður og fleiri en áður, eða 22% stunduðu næturlífið.
Í könnuninni voru jafnframt settar fram nokkrar fullyrðingar sem gestirnir lögðu mat á. Í ljós kom að 86% voru sammála þeirri fullyrðingu að Reykjavík sé örugg borg, 83% telja að Reykjavík sé hrein borg, 75% telja að auðvelt sé að ferðast um borgina og 72% voru sammála því að Reykjavík sé skapandi borg.
Því eldri sem gestir eru því ánægðari eru þeir. Þannig segja 96% þeirra sem eru 55 ára og eldri reynsluna frábæra eða góða en 87% 16 til 35 ára eru sama sinnis.
Af þeim þjóðum sem sækja Reykjavík heim eru íbúar Norður Ameríku ánægðastir, þar telja 97% aðspurðra reynsluna af Reykjavík frábæra eða góða. Bretar og Suður-Evrópu búar fylgja þeim fast á eftir.Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar gerðu könnunina fyrir Höfuðborgarstofu síðastliðið sumar, frá júní til ágúst og var úrtakið rúmlega 2000 erlendir ferðamenn sem voru á leið úr landi í Leifsstöð.