Banaslys í umferðinni eru nú í 10. sæti á heimsvísu yfir algengustu orsakir ótímabærra dauðsfalla, en verði ekkert að gert er því spáð að á næstu áratugum nái þau 4. sætinu. Þetta kom fram í erindi bresks sérfræðings á Umferðarþingi í dag, en hann fjallaði um hvernig útrýma mætti banaslysum með bættu vegakerfi.
John Dawson er einn höfunda svonefndrar „0 stefnu“ sem stefnir einfaldlega að því að engin banaslys verði í umferðinni. Ísland varð nýlega fyrsta landið í svokölluðu EuroRAP verkefni, sem Dawson stendur fyrir, til að ljúka yfirferð á vegakerfi sínu, en alls hafa 3.500 km af helstu vegum landsins verið gæðaprófaðir. Markmið verkefnisins er áhættumat og í kjölfarið umbætur á vegakerfum Evrópulanda til að bjarga mannslífum.
Dawson segir að líkja megi banaslysum í umferðinni við faraldur, að því undanskildu að mun minni orku og fjármagni sé veitt í að uppræta þau en annars konar faraldra s.s. HIV og berkla. Hann bendir á að kostnaðurinn við umferðarslys á Íslandi nemi um 2% af vergri þjóðarframleiðslu en með litlum tilkostnaði megi lækka það hlutfall verulega, þ.e. með bættara vegakerfi.
Hann leggur áherslu á að breyta þurfi áherslum í umferðaröryggi, hversdagsleg mistök venjulegra bílstjóri eigi ekki að þýða dauðarefsingu. „Í 100 ár höfum við sagt að þetta velti allt á framferði ökumanna. En þeir eru ekki einu sökudólgarnir.“ Rannsóknnir sýna að u.þ.b. ein ákvörðun af hverjum 500 sem ökumenn taka í umferðinni er röng og þótt þeir séu á löglegum hraða getur mannslíkaminn ekki lifað af högg á yfir 40 km. hraða ef ekkert er á milli sem varnar.
Kerfi Dawson og EuroRap miðar því að því að vegir séu þannig hannaðir að þegar ökumenni geri mannleg mistök, þá verndi bæði vegurinn og ökutækið fólk gegn meiðslum, örkumlum og dauða. Dawson segist vongóður um að Ísland geti tekið að sér forystuhlutverk í þessum efnum þar sem vegakerfið hér sé að stórum hluta skammt á veg komið og því auðvelt að móta framtíðaruppbyggingu samkvæmt nýjum viðmiðum.