Stjórn Félags sjúkraflutningamanna í Árnessýslu og stjórn deildar Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er vonbrigðum með þá stöðu sem komin sé upp í tengslum við byggingu nýrrar björgunarmiðstöðvarinnar á Selfossi.
Verktakar hreinsuðu í gær allt sitt út úr húsinu: raflagnir, ljós, hreinlætistæki og allt sem tengist pípulögnum. Segjast þeir ekki hafa fengið greiddar um 50 milljónir króna, sem þeir eigi inni hjá Björgunarmiðstöð Árborgar ehf.
Í yfirlýsingunni segir, að ljóst sé, að atburðarás dagsins auki enn meir á þá óvissu, sem hafi ríkt um framtíðaraðstöðu fyrir sjúkraflutningamenn í Árnessýslu. Sjúkraflutningamenn hafi beðið lengi eftir að komast í það glæsilega hús sem Björgunarmiðstöðin hafi byggt upp fyrir viðbragðsaðila á Selfossi. Nú ríki alger óvissa um aðstöðu fyrir sjúkraflutningamenn og sjúkrabíla og óljóst hvað sé framundan.