Notuðu peningamarkaðssjóði í eigin þágu

Eigendur bankanna virðast hafa látið peningamarkaðssjóði bankans kaupa í sínum eigin fyrirtækjum skömmu fyrir hrun bankans, en selja í öðrum og traustari fyrirtækjum. Skýringin er sú að þeir voru komnir í lausafjárþröng. Þetta gerði það að verkum að eigendur peningamarkaðssjóða bankanna töpuðu stórum fjárhæðum. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segist hafa fyrir þessu áreiðanlegar heimildir. Hann hafi kallað eftir upplýsingum um málið í viðskiptanefnd Alþingis en menn neiti að láta þær að hendi í skjóli bankaleyndar.  Atli segir að þingnefndum sé ítrekað neitað um upplýsingar um bankana.  Í raun fái þær engar upplýsingar sem máli skipti.

Í uppslætti fréttarinnar þegar hún birtist fyrst var því haldið fram að að þetta ætti sérstaklega við um Kaupþing, Atli Gíslason hafði í framhaldinu samband við MBL og sagði forsvarsmenn Kaupþings hafa haft samband eftir að fréttin birtist og boðið sér fund um málið og að skoða viðkomandi upplýsingar. Hann vilji hafa það sem sannara reynist og geri grein fyrir þeim fundi síðar. Upplýsingar sem hann hafði undir hendi virðist því einungis varða hina bankana tvo. Atli Gíslason biðst velvirðingar á þessu. Kaupþing sendi ennfremur frá sér tilkynningu þar sem þetta var borið til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka