Samtök verslunar og þjónustu gagnrýna LÍÚ

Hrund Rudolfsdóttir, formaður SVÞ
Hrund Rudolfsdóttir, formaður SVÞ

Formaður Samtaka verslunar og þjónustu, (SVÞ) gagnrýnir Landssamband íslenskra útvegsmanna, (LÍÚ) harkalega fyrir hótanir um úrsögn úr Samtökum atvinnulífsins. Formaður SVÞ segir hótanir LÍÚ ekki tímabærar og sú tilraun LÍÚ að hindra að málefnið sé tekið á dagskrá sé samtökunum ekki til sóma.

Hrund Rudolfsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, gagnrýnir LÍÚ harkalega í bréfi sem hún sendir félagsmönnum SVÞ. Tilefni bréfsins er skoðanakönnun meðal félagsmanna Samtaka atvinnulífsins um hvort SA skuli beita sér fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. LÍÚ brást harkalega við þessari ákvörðun og hótaði úrsögn úr SA ef samtökunum yrði beitt til að berjast fyrir ESB-aðild.

Formaður SVÞ segir í bréfi sínu að engin ákvörðun um breytingu á formlegri afstöðu SA til ESB-aðildar hafi verið tekin. Aðeins sé verið að kanna hug félagsmanna SA. Þegar niðurstaða könnunarinnar liggi fyrir þurfi að skoða vel hvort sú niðurstaða sé afgerandi og skýr og hvort hægt sé með annarri aðferðafræði en að beita afli SA, að verða við vilja meirihluta félagsmanna, þar sem ljóst sé að minnihluti félagsmanna, þ.m.t. LÍÚ, sé slíku sterklega mótfallinn.

Formaður SVÞ segir ljóst að hagsmunir LÍÚ, sem einnig séu hagsmunir þjóðarinnar, muni skipa veigamikinn sess þegar og ef til aðildarviðræðna komi. „En sú tilraun LÍÚ að reyna að hindra að málefnið sé tekið á dagskrá og reyna að hindra að aðrir félagsmenn fái að tjá sinn vilja og verja sína hagsmuni með bestum hætti, er þeim ekki til sóma og þeirra hagsmunum ekki til framdráttar,“ segir Hrund Rudolfsdóttir, formaður SVÞ í bréfi til félagsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert