Skilaði spólunni með viðtalinu

G. Pétur Matthíasson.
G. Pétur Matthíasson.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segist hafa sent Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, spólu í ábyrgðarpósti með upprunalegri upptöku af viðtali, sem Pétur tók við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í janúar 2007. Þar með telur G. Pétur sig hafa orðið við kröfum Páls. Hins vegar sé myndbandið auðvitað öllum aðgengilegt á netinu eftir sem áður. Pétur setti viðtalið á bloggsíðu sína í síðustu viku.

Páll  krafðist þess í gær að G. Pétur   skilaði upptökunni af viðtalinu og bæðist afsökunar á framferði sínu. Að öðrum kosti myndi lögfræðingur stofnunarinnar fá málið sent til skoðunar. 

G. Pétur segir erfitt að átta sig á því hvað Páll meini með afsökunarbeiðni en hann vilji biðja þjóðina afsökunar á því að hafa ekki birt viðtalið strax á sínum tíma.

„Hafi Ríkissjónvarpið, minn gamli vinnustaður, beðið álitshnekki þá biðst ég afsökunar á því líka,“ segir G. Pétur. Af þeim viðbrögðum að dæma, sem hann hefur fengið vegna málsins, sé þó líklegra að Ríkisútvarpið hafi beðið álitshnekki vegna kröfu Páls Magnússonar.

Mörgum hefur þótt orðsending Páls hljóma sem aðvörun til núverandi starfsfólks. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert