Staðnaður byggingariðnaður

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir að grípa hafi orðið til uppsagna og breytinga á rekstri  verslana þar sem byggingariðnaður á höfuðborgarsvæðinu hafi  staðnað vegna skorts á fjármögnun. Viðskipti við verktaka séu í lágmarki og eftirspurn virðist áfram verða lítil. Þá sé gengisþróun fyrirtækinu afar óhagstæð.

„Þessar aðgerðir snúast um að koma Húsasmiðjunni í gegnum þá erfiðleika sem framundan eru og tryggja sem flest störf til framtíðar. Við hagræddum í rekstrinum um síðustu mánaðamót með því að endurskoða alla samninga starfsmanna um eftirvinnu. Þær aðgerðir tókust vel og við héldum að þær dygðu um sinn. En vegna mjög neikvæðra utanaðkomandi áhrifa síðustu vikurnar eigum við ekki annars úrkosta en að grípa til frekari aðgerða,“ segir Steinn Logi í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Húsasmiðjan mun segja upp 99 starfsmönnum í fullu starfi auk  starfsmanna í hlutastarfi en nákvæm tala um fjölda þeirra liggur ekki enn fyrir. Þeim starfsmönnum sem fá uppsagnarbréf verður boðin sérfræðiaðstoð hjá fyrirtækinu Þekkingarmiðlun.

Á höfuðborgarsvæðinu verður áhersla lögð á tvær höfuðeiningar, verslanirnar í Skútuvogi og í Grafarholti. Meginhluti starfsemi timbursölunnar í Súðarvogi og Pípuverslunarinnar í Skútuvogi verður fluttur inn í þessar verslanir og sala og ráðgjöf á þessum sviðum efld. Verslun Húsasmiðjunnar í Ögurhvarfi í Kópavogi verður lokað. Til viðbótar verður leitað hagræðingar á öllum sviðum rekstrarins.

Þjónustan úti á landi verður að mestu óbreytt en Húsasmiðjan segir, að samdráttur í byggingariðnaði sé ekki eins alvarlegur þar og á höfuðborgarsvæðinu. Húsasmiðjan hafi byggt upp þétt net verslana um allt land og nú síðast var opnuð ný 1200 fm verslun á Hvolsvelli.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert