Veruleg hreyfing er í kjaraviðræðum Samninganefnda Reykjavíkurborgar og Eflingar. Borgin býður 20.300 króna hækkun mánaðarlauna en tekist er á um gildistíma samningsins.
Kjarasamningur Eflingar og Reykjavíkurborgar rann út 31. október og var kjaradeilu þeirra vísað til ríkissáttasemjara á dögunum þar sem lítið hafði þokast í samkomulagsátt. Að undanförnu hefur þokast og stendur helst á gildistíma samningsins. Borgin vill gera samning til eins árs en Efling vill miða við fimm mánaða samningstíma að hámarki eða til loka apríl 2009.
„Þar með erum við með lausa samninga á svipuðum tíma og aðrir og getum því tekið þátt í því samstarfi sem verið er að efna til um samninga til næstu tveggja ára. En ég trúi því að við finnum á þessu lausn,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar.
Eins og áður segir býður Reykjavíkurborg 20.300 króna hækkun taxtalauna frá 1. nóvember að telja. Í raun er ekki ágreiningur um það, hækkunin er í takt við það sem önnur félög hafa samið um frá í sumar. Þá virðist vera að nást sátt um 0,13% framlag í endurmenntunarsjóð.
„Þetta er mikið réttindamál, ekki aðeins fyrir launafólkið heldur líka atvinnurekendur. Um þetta hefur tekist samkomulag m.a. hjá ríkinu. Þessi sjóður er m.a. hugsaður sem úrræði fyrir einstaklinga sem eiga við langvarandi veikindi að stríða,“ segir Sigurður Bessason.
Viðræðum samninganefnda Reykjavíkurborgar og Eflingar verður fram haldið á morgun og segist formaður Eflingar hóflega bjartsýnn á að samið verði fyrir helgi.