Verslunum Next og Noa Noa lokað tímabundið

Tilkynningu hefur verið komið fyrir í glugga Next til að …
Tilkynningu hefur verið komið fyrir í glugga Next til að láta viðskiptavini vita af lokuninni. mbl.is/Júlíus

Verslunum Next og Noa Noa í Kringlunni hefur verið lokað tímabundið vegna endurskipulagningar í rekstri. Að sögn Sverris Bergs Steinarssonar, forstjóra Árdegis, verða verslanirnar opnaðar aftur fyrir helgi.

Búið er að hengja upp skilti í glugga verslunarinnar Next þar sem fram kemur að verslunin verði opnuð aftur innan skamms. Í glugga verslunarinnar Noa Noa er hins vegar búið að hengja upp skilti þar sem það kemur fram að versluninni hafi verið lokað og að viðskiptavinum Noa Noa sé þökkuð áralöng tryggð.

Aðspurður segir Sverrir að ekki sé verið að segja upp fólki í tengslum við þessa endurskipulagningu. „Við höfum ekki fengið nýja vöru lengi og það er verið að koma því í gang,“ segir hann í samtali við mbl.is og vísar til núverandi efnahagsástands.

„Það er búið að vera algjört stopp í gjaldeyrismálum og það er eitt af því sem við höfum verið að reyna finna út úr með okkar samstarfsaðilum,“ segir hann.

„Það verður búið að opna aftur fyrir vikulok,“ segir Sverrir Berg ennfremur.

Í tilkynningu frá Noa Noa segir að versluninni hafi verið …
Í tilkynningu frá Noa Noa segir að versluninni hafi verið lokað. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert