Versnandi veður er um allt norðanvert landið, allt frá norðanverðum Vestfjörðum austur á Melrakkasléttu og Þistilfjörð, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Mikil ofanhríð og mjög blint í hvössum vindinum. Á þessum slóðum getur færð spillst.
Í fyrramálið má búast við miklum vindsveipum á Kjalarnesi og í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Á Suðurlandi er greiðfært á flestum aðalleiðum en hálkublettir eru víða í uppsveitum. Á Vesturlandi er greiðfært. Á Vestfjörðum er greiðfært á flestum leiðum en hálka eða hálkublettir eru á fjallvegum.
Á Norðurlandi eru hálkublettir á fjallvegum. Éljagangur er á norðaustur horninu ásamt hálkublettum og einhverri
snjóþekju. Á Austurlandi eru víða hálkublettir en þó er hálka á stöku stað. Suðaustanlands er kominn éljagangur, þar eru hálkublettir og snjóþekja.