Ung vinstri græn gagnrýna framgöngu Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, gagnvart G. Pétri Matthíassyni, fyrrum fréttamanni Ríkisútvarpsins, og krefjast þess að Ríkisútvarpið fari að fordæmi G. Péturs og biðji þjóðina afsökunar á að halda að sér upplýsingum um ráðamenn.
„Viðbrögð útvarpsstjóra í þessu máli bera merki ritskoðunar á fréttaefni sem kemur almenningi mjög við, og er grafalvarleg árás á málfrelsi fréttamanna. Ung vinstri græn skora á Pál Magnússon að biðjast afsökunar á að hafa hótað G. Pétri með lögfræðingum fyrir að hafa sýnt þjóðinni það sem RÚV hefur leynt hana, algerlega óviðeigandi framkomu forsætisráðherra gagnvart fjölmiðlamanni sem hafði í sér dug til að spyrja stjórnvöld erfiðra spurninga," segir m.a. í ályktun samtakanna.