Vilja tengja íslensku krónuna við þá norsku

mbl.is/Júlíus

Þrír þingmenn Frjálslynda flokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni verði falið að kanna möguleika á því að tengja íslensku krónuna við aðra mynt, t.d. norsku krónuna í samráði og samstarfi við norsk stjórnvöld.

Reynist þess ekki kostur verði kannaðir möguleikar á að taka upp evru sem gjaldmiðil, með eða án samráðs við Evrópusambandið.

Jón Magnússon er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en meðflutningsmenn eru Guðjón A. Kristjánsson og Grétar Mar Jónsson. Fjórði þingmaður flokksins, Kristinn H. Gunnarsson, er hins vegar ekki meðflutningsmaður. 

Í greinargerð segjast flutningsmenn tillögunnar telja óvarlegt að gera nýja tilraun með að fleyta krónunni. Ef til vill verði ekki hjá því komist einhverja hríð en þar verði þó að fara varlega og gæta þess að fjárstreymi úr landinu verði takmarkað svo sem kostur er meðan sú skipan helst.

„ Ljóst er af fyrri reynslu að fleyting krónunnar er áhættusöm. Íslenskt atvinnulíf býr þá ekki við nauðsynlegan stöðugleika. Þá liggur líka fyrir að þessi leið er afar kostnaðarsöm fyrir þjóðina. Flutningsmenn telja mikilvægt að íslenska þjóðin taki ekki versta kostinn, flotkrónu og áframhaldandi verðtryggingu, þegar völ er á öðrum mun betri," segir í greinargerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert