Þingflokkar stjórnarflokkanna sitja nú á fundum og fjalla um frumvarp um gjaldeyrisviðskipti, sem til stendur að leggja fram á Alþingi klukkan 20 og taka til umræðu strax og afgreiða í kvöld. Um er að ræða frumvarp sem tengist áformum um að setja krónuna á flot að nýju en það verður væntanlega gert eftir helgina.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is gerir frumvarpið ráð fyrir takmörkunum á flutningum fjármagns úr landi og er því ætlað að koma í veg fyrir fjármagnsflótta þegar krónan verður sett á flot. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir að aflétt verði þeim takmörkunum, sem verið hafa á viðskiptum með gjaldeyri að undanförnu.