Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu að matsáætlun vegna álvers Alcoa á Bakka við Húsavík. Stofnunin gerir þó nokkrar athugasemdir við áætlunina og telur m.a. brýnt að í frummatsskýrslu sé gerð grein fyrir orkuþörf versins og orkuöflun þannig almenningur geti borið stærðirnar saman.
Skipulagsstofnun bendir á að í frummatsskýrslu þurfi að gera grein fyrir hversu mikla orku talið er að unnt verði að fá frá jarðvarmavirkjunum í Þingeyjarsýslum og hvað sú orka dugi fyrir mikilli álframleiðslu á ári.
Jafnframt segist Skipulagsstofnun telja, að það þurfi að koma fram hvaða aðrir virkjanakostir komi til greina vegna álversins og hversu mikil orka sé til staðar í raforkukerfinu sem gæti nýst álverinu. Jafnframt segist Skipulagsstofnun telja, að í frummatsskýrslu þurfi að gera grein fyrir hvort orkuöflun hefur í för með sér framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, hverjar þær framkvæmdir eru og hvenær fyrirhugað er að málsmeðferð vegna þeirra hefjist samkvæmt lögunum.