Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga

Viðskiptaráðherra mælti í kvöld á Alþingi fyrir frumvarpi um gjaldeyrismál. Er gert ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum í nótt. Samkvæmt frumvarpinu er Seðlabankanum gert kleift með tímabundnum takmörkunum á gjaldeyrisviðskipti, í tvö ár eða til 30. nóvember árið 2010, að hindra fjármagnsflótta úr landi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að  talsverð hætta sé á að aðilar sem eiga verulegar fjárhæðir í krónum, bæði á innlánsreikningum og í verðbréfum, muni leggja allt kapp á að selja slík bréf og kaupa gjaldeyri til að koma fjármunum sínum úr landi um leið og færi gefst.

Þar sem fjárhæðir þessar séu verulegar geti slíkir fjármagnsflutningar leitt til verulegrar gengislækkunar íslensku krónunnar vegna keðjuverkandi áhrifa. Hætta sé  á að fjárfestar, sem að öðrum kosti vildu halda krónustöðum sínum, reyni einnig að selja við slíkar aðstæður.

Nauðsynlegt sé talið að unnt sé að loka öllum mögulegum leiðum sem innlendir og erlendir aðilar hafi til að loka krónustöðum sínum fyrr en ella. Mikil bankaviðskipti slíkra aðila geti valdið miklum sveiflum í gengi krónunnar. Dæmi séu um að gengi haldist lágt um árabil í kjölfar fjármála- og gjaldeyriskreppu  þrátt fyrir viðskiptaafgang, sem skapi að öðru óbreyttu forsendur til þess að gengi gjaldmiðils styrkist.

Segir í greinargerðinni, að til þess að draga úr líkum á langvarandi yfirskoti sé nauðsynlegt að takmarka möguleika aðila á að selja krónur gegn erlendum gjaldeyri og á sama hátt að takmarka möguleika þeirra sem aðgang hafa að erlendum gjaldeyri vegna útflutnings eða erlendra eigna að mæta þeirri eftirspurn.

Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir heimild Seðlabanka Íslands til að takmarka eða stöðva í allt að sex mánuði tiltekna flokka fjármagnshreyfinga ef skammtímahreyfingar fjármagns til og frá landinu valda að mati Seðlabankans óstöðugleika í gengis- og peningamálum.

Spornað gegn spákaupmennsku 

Fram kemur að spákaupmennska og óstöðugleiki í peninga- og gjaldeyrismálum fylgi fremur skammtímahreyfingum fjármagns en langtímahreyfingum. Ákvæðið miði að því að geta spornað við því að skyndihreyfingar fjármagns hafi óæskileg áhrif á innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað og skapi umrót og óvissu.

Þá kemur fram, að  aðgangur almennings og fyrirtækja að gjaldeyri vegna viðskipta með vöru og þjónustu verði ekki heftur nema að því marki að til fjármagnshreyfinga komi í tengslum við slík viðskipti. Almenningur muni því áfram hafa aðgang að gjaldeyri vegna ferðalaga og námskostnaðar.

Skilaskylda á gjaldeyri

Í greinargerðinni segir að það muni taka tíma að byggja upp gjaldeyrisforða sem hægt er að nýta til að greiða niður krónulán og verðbréf. Því sé lagt til að Seðlabankinn fái heimild til að setja reglur um skilaskyldu erlends gjaldeyris sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt. Ekki sé gert ráð fyrir að gerð verði krafa um sölu á erlendum gjaldeyri heldur geti eigendur lagt hann inn á innlenda gjaldeyrisreikninga og þannig haft óheftan aðgang að þeim gjaldeyri vegna vöru- og þjónustuviðskipta.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna brota á lögunum eða reglum settum á grundvelli þeirra eftir að Seðlabankinn hefur tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um meint brot. Gert er ráð fyrir að hámarksfjárhæð stjórnvaldssekta verði 75 milljónir króna.

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert