Alþýðusamband Íslands krefst þess að stjórnvöld búi heimilunum öruggt skjól í því gjörningaveðri sem nú gengur yfir landið. Það verður að vera forgangsverkefni að tryggja atvinnu og stemma stigu við fólksflótta. Þetta kemur fram í yfirlýsingu baráttufundar ASÍ, sem var haldinn síðdegis.
Þar segir jafnframt að það sé krafa ASÍ að hér á landi verði tryggður sami stöðugleiki og sambærileg kjör á húsnæðislánum og almenningi býðst í nágrannalöndunum. Finna þurfi leiðir til að koma heimilunum út úr vítahring hárra vaxta og verðtryggingar.
„Ríkisstjórnin er rúin trausti almennings og það er á hennar ábyrgð að endurnýja það með uppstokkun – við viljum nýjan grunn og nýtt fólk strax. Fundurinn krefst þess að yfirstjórn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins víki tafarlaust.
Fundurinn fagnar frumvarpi um skipun óháðrar nefndar sérfræðinga sem rannsaka á hrun fjármálakerfisins og bendir jafnframt á að réttlætiskennd almennings er misboðið. Við krefjumst skýrra svara og upplýsinga, án undanbragða og hroka.
Stjórnvöld verða að hafa pólitískan kjark til að taka nauðsynlegar ákvarðanir til framtíðar og gefa sem fyrst út yfirlýsingu um að Ísland muni sækja um aðild að ESB og í framhaldinu taka upp evru sem gjaldmiðil. Þannig má treysta stöðugleika og lækka verðbólgu.
Endurskoðun kjarasamningsins frá febrúar sl. og samstarf við samtök opinberra starfsmanna um sameiginlega kjarastefnu til næstu ára er mikilvægt úrlausnarefni.
Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir erfiðum verkefnum. Alþýðusamband Íslands og aðildarsamtök þess lýsa sig reiðubúin til að koma að því endurreisnar- og uppbyggingarstarfi sem framundan er.
Okkar áherslur eru einfaldar og skýrar. Við viljum byggja upp samfélag með fjölbreyttu atvinnulífi og góðri menntun fyrir alla. Við viljum byggja upp velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd,“ segir í yfirlýsingunni.