Íslendingar boðaðir á þjóðfund

Margir hafa verið duglegir að láta í sér heyra á …
Margir hafa verið duglegir að láta í sér heyra á útifundunum sem hafa verið haldnir á Austurvelli undanfarnar vikur. mbl.is/Kristinn

Íslendingar eru boðaðir á þjóðfund á 90 ára afmæli fullveldis Íslands, þann 1. desember nk., í „tilefni þess manngerða gjörningaveðurs í efnahagsmálum sem dunið hefur á Íslandi,“ að því er segir í tilkynningu frá Borgarahreyfingu um Þjóðfund 1. des.

Hreyfingin eru regnhlífarsamtök þeirra hópa og einstaklinga sem hafa haft sig í frammi opinberlega undanfarnar vikur vegna þess gjörningaveðurs sem fjármálamenn, stjórnvöld og embættismenn hafa kallað yfir þjóðina.

Fram kemur í tilkynningu að Borgarahreyfingin standi algerlega utan við alla stjórnmálaflokka og hún telji að núverandi stjórnvöld sem og stjórnarandstaða hafi glatað trausti landsmanna.

Borgarahreyfingin hvetur alla landsmenn til að sýna samstöðu og krefjast breytinga á stjórn landsmála og breytinga á stjórnsýslu með því að leggja niður vinnu og mæta á Þjóðfund á Arnarhóli klukkan 15 1. desember.

Jafnframt hvetur Borgarahreyfingin til þess að öll samtök launþega veki athygli félagsmanna sinna á fundinum og að Samtök atvinnulífsins sýni vilja sinn til þjóðarsáttar og hvetji aðildarfélög sín til að gefa starfsfólki leyfi frá störfum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka