Stórhveli, 18-20 metra langt, fannst rekið við Dyrhólaós á Reynisfjöru, alveg upp við Dyrhólaey, í gær. Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, taldi af myndum að dæma að þarna hefði rekið miðlungsstóra fullvaxna langreyðarkú.
Hausinn á hræinu er nokkuð mikið laskaður og næstum laus frá búknum. Talið er mögulegt að hvalurinn hafi lent í skipsskrúfu eða í árekstri við skip. Ekki er talið að hvalurinn sé löngu dauður. Sverrir sagði reyðarhvali reka sjaldan en í fyrra rak aðra langreyði nokkru vestar á Sólheimafjöru. Tekin verða sýni úr hræinu til rannsókna og líklega verður það urðað að því loknu. Ólafur Steinar Björnsson, bóndi á Reyni sem sést standa við hvalinn, varð fyrstur var við hvalrekann og lét lögreglu vita.