Mótmælir spillingu, leynd, bruðli og valdhroka

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon. mbl.is/Kristinn

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, lagði fram fyrirspurn á fundi borgarráðs í dag þar sem þess er krafist að upplýsingar um ýmsan kostnað, t.d. launakostnað og ferðakostnað, hjá borginni verði gerður aðgengilegur, og ekki haldið leyndum. Hann segist mótmæla spillingu, leynd, bruðli og valdhroka borgarstjórnarmeirihlutans.

Ólafur spurði jafnframt hvers vegna að Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri hafi látið sig vanta á fund borgarráðs í dag „vegna ferðalaga erlendis á sama tíma og fjölskyldum í Reykjavík blæðir vegna þess efnahagshruns sem einkavinavæðing ríkisbankanna og önnur spilling Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur kallað yfir þjóðina,“ segir Ólafur.

Ólafur gagnrýnir jafnframt að borgarstjóri og borgarstjórnarmeirihlutinn forgangsraði í eigin þágu og „nenntu ekki að sinna bráðnauðsynlegri vinnu við fjármálastjórn borgarinnar.  Ég segi aðeins að ólíkt höfumst við að , ég  og Hanna Birna í forgangsröðun okkar og störfum fyrir Reykvíkinga,“ segir Ólafur.

Í bókun meirihluta borgarráðs, þar sem bókunum Ólafs um Strætó er svarað, kemur m.a. fram að borgarstjóri sé í embættiserindum á aðalfundi Eurocities í Haag. Reykjavíkurborg sé þar tilnefnd til verðlauna vegna verkefnisins 1, 2 og Reykjavík. Enn fremur sé þar flutt erindi um verkefnið. Það væri miður ef Reykjavíkurborg stæði ekki við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert