Kaldbakur, sem Þorsteinn Már Baldvinsson leiðir, eignast tryggingafélagið TM samþykki Nýi Landsbankinn og Fjármálaeftirlitið söluna. Stoðir eiga TM en eru í greiðslustöðvun til 20. janúar.
Hallbjörn Karlsson, fjárfestir sem hagnaðist á sölu Húsasmiðjunnar árið 2005, gagnrýnir að þeir sem áhuga hafa á að kaupa fyrirtæki í fjárhagskröggum sitji ekki við sama borð innan bankanna og fyrrverandi eigendur þeirra. Þorsteinn Már var stjórnarformaður Glitnis sem Stoðir áttu ráðandi hlut í.
Hallbjörn segir að gömlu starfsmenn bankanna, sem sjái um þessi mál, séu í góðum tengslum við hluthafana í eignarhaldsfélögunum sem þeir þekkja og hjálpi þeim. Hann hafi heyrt af sölu TM á göngum bankans. Lögmaður Félags stórkaupmanna, Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, segir sögusagnir um hrossakaup á fyrirtækjum með milligöngu nýju bankanna vekja ugg. „Ég sé engan markað þar sem fyrirtæki eru boðin til sölu,“ bendir hann á. „Slæmt er að meðferð þessara mála sé ekki hafin yfir allan vafa.“
Landsbankinn vísar því á bug að hann hafi selt TM. „Landsbankinn vill jafnframt taka fram að bankinn kaupir hvorki né selur félög eða fyrirtæki né hefur milligöngu um slíkt nema með skýru umboði frá eigendum viðkomandi félags.“ Bankinn verndi viðskiptalega hagsmuni sína og verðmæti eigna sinna.
Hallbjörn bendir á að það sé nú í hendi bankans hvort salan fari fram. Vilji bankinn að TM skipti um eigendur eigi hann skilyrðislaust að auglýsa tryggingafélagið til sölu. Annars að leysa það til sín upp í skuldir.