Undirrita viljayfirlýsingu um uppbyggingu heilsuþorps

Fulltrúar Hrunamannahrepps og stjórn Heilsuþorpa ehf munu á morgun undirrita viljayfirlýsingu um að vinna að uppbyggingu heilsuþorps að Flúðum, Hrunamannahreppi.

Hrunamannahreppur leggur til 8 hektara landssvæði á Flúðum og Heilsuþorp ehf alla undirbúningsvinnu, hönnun, skipulag og öflun framkvæmdafjár. Félagið mun efna til samstarfs við fjölmarga aðila, sem hafa hagsmuni af þátttöku í verkefninu, að því er fram kemur í tilkynningu.

Áætlað er, að undirbúningur verksins taki allt að tveimur árum. Í heilsuþorpinu verða tæplega 200 íbúðaeiningar, þjónustubyggingar og laugar. Þar verður hvíldar- og endurhæfingaraðstaða og er gert ráð fyrir að þar starfi fagfólk í ýmsum greinum heilbrigðisþjónustu.

Landið, sem Hrunamannahreppur leggur til, er í landi Laxárhlíðar við Flúðir.  Það liggur í fögru umhverfi að bökkum Litlu Laxár. Á svæðinu er gnótt af heitu vatni og fersku, göngu- og reiðleiðir og greið aðkoma.

Innan skamms verður stofnað undirbúningsfélag vegna framkvæmdanna. Heilsuþorp ehf munu hafa náið samstarf við Hrunamannahrepp við uppbygginguna og verður fylgt náttúruvænni stefnu við allan frágang lands og húsa. Þá verður leitast við að sem flesta þjónustuþætti megi sækja til Hrunamannahrepps.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert